Námskeið í stjörnuskoðun

01. mars 2012

Nýtt stjörnuskoðunarfélag í Vestmannaeyjum

Undirbúningsfundur fyrir stofnun stjörnuskoðunarfélags í Vestmannaeyjum var haldinn 29. febrúar 2012 og formlegur stofnfundur 20. mars 2012. Karl Gauti Hjaltason, sem einnig er félagi í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, segir svo frá undirbúnings- og stofnfundi:

Undirbúningsfundur 29. febrúar 2012

„Í dag var stofnað félag áhugamanna og -kvenna um stjörnufræði og stjörnuskoðun í Vestmannaeyjum. Kjörin var undirbúningsstjórn sem undirbýr fyrsta aðalfund félagsins sem haldin verður á vorjafndægrum þriðjudaginn 20 mars n.k. í Safnheimum kl. 17:30.

Stofndagur félagsins var á hlaupársdegi og þótti það svo vel við hæfi að 16 manns mættu á stofnfundinn í dag og var rætt um tilgang og markmið félagsins, nafn þess og fleira sem endanlega verður ákveðið 20 mars.

Í þriggja manna undirbúningsstjórn voru kjörnir þeir Karl Gauti Hjaltason, Sigmar Gíslason og Davíð Guðmundsson.

Allir geta orðið stofnfélagar í félaginu sem skrá sig hjá undirbúingsstjórninni til 20 mars n.k. eða mæta aðalfundinn.

Mikill hugur var í fólki og greinilega mikill áhugi á að fræðast um stjörnuhiminninn og efla raunvísindagreinar í Vestmannaeyjum.  Rætt var um samvinnu við skólana hér og söfnin um að gera stjörnufræðin aðgengilegri fyrir bæjarbúa.“

Félagið stofnað formlega 20. mars 2012

„Í gærkvöldi var formlega gengið frá stofnun Stjörnufræðifélags Vestmannaeyja SFV og mættu 27 manns á fundinn og eru stofnfélagar hvorki fleiri né færri en 34! Áhuginn er greinilega mjög mikill.

Í stjórn félagsins voru kjörin: Karl Gauti Hjaltason formaður, Soffía Valdimarsdóttir gjaldkeri, Margrét Lilja Magnúsdóttir ritari, Bjartur Týr Ólafsson og Védís Guðmundsdóttir meðstjórnendur.

Á fundinum voru ýmsar hugmyndir ræddar, félagsfundir og fyrirlestrar ásamt stjörnuskoðunarkvöldum fyrir félagsmenn.  Þá var rætt um samstarf við skóla og söfn bæjarins og að gera stjörnufræðina áhugaverða fyrir skólabörn og bæjarbúa almennt.

Samþykkt var að ganga í samstarf við SSFS og stjórninni falið að ræða það mál við ykkur í smáatriðum.  Við vonumst auðvitað eftir góðu samstarfi og reyndar veit ég að svo verður.

Opnað verður fyrir feisbúkk síðu og er það reyndar búið og heimasíða mun líta dagsins ljós fljótlega sfv.is (held ég) og vona ég að við getum bæði notið góðs af ykkar fróðleiksbrunnum og sett inn tengla í báðar áttir.

Næsti félagsfundur verður 12. apríl n.k. og verður þá eitthvað skemmtilegt á dagskránni.“

Félagar á stofnfundir SFVM

Félagar á stofnfundi Stjörnuskoðunarfélags Vestmannaeyja 20. mars 2012. Ljósmynd: Óskar Pétursson

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness - 600279-0339 - Valhúsaskóla v. Skólabraut, 170 Seltjarnarnes - ssfs [hjá] astro.is - mail.astro.is