Námskeið í stjörnuskoðun

Sverrir Guðmundsson/20. maí 2010

Fundargerðir félagsfunda vorið 2010

Félagsfundur 7. maí 2010

Dagsetning: 7. maí 2010.
Fundarstaður: skólastofa í Valhúsaskóla.

Þátttakendur: félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness - tæplega 20 manns mættu.

Dagskrá

1. Opið hús með Stephen James O'Meara

Helstu málefni dagskrár

Hinn heimsþekkti stjörnuskoðari Stephen James O'Meara kom hingað til þess að taka myndir af eldgosinu í Eyjafjallajökli og afla efnis fyrir umfjöllun um áhugamannastjörnufræði á Íslandi í Astronomy tímaritinu. Hann spjallaði við félaga í Stjörnuskoðunarfélaginu um athuganir sínar og uppgötvanir s.s. snúningstíma Úranusar, fund halastjörnu Halleys í janúar 1985 og hringdrauga (spokes) við Satúrnus. Eftir hlé snerist umræðan að miklu leyti um hvað áhugamenn geta gert til þess að vinna gegn ljósmengun.

Fundi var slitið um klukkan 22:30.

 

Félagsfundur 7. apríl 2010

Dagsetning: 7. apríl 2010.
Fundarstaður: skólastofa í Valhúsaskóla.

Þátttakendur: félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness - um 20 manns mættu.

Dagskrá

1. Ferðasaga Sævars Helga Bragasonar frá CAP ráðstefnu í Höfðaborg í S-Afríku

Helstu málefni dagskrár

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, sagði í máli og myndum frá ferð sinni á alþjóðlega ráðstefnu um miðlun stjörnufræði í Höfðaborg í Suður-Afríku. Einnig sýndi hann myndir úr ferðum sínum út fyrir borgina, m.a. á Góðrarvonarhöfða og í stjörnuskoðun undir suðurhimni í nágrenni SALT-stjörnusjónaukans.

Fundi var slitið upp úr kl. 22.

 

Undur veraldar - málþing um stjörnufræði á Akureyri 20. mars 2010

Dagsetning: 20. mars 2010.

Fundarstaður: Menntaskólinn á Akureyri. Þátttakendur: gestir á málþingi um stjörnufræði. Um 60 manns mættu á málþingið.

Stjörnuskoðunarfélagið var með bás á málþinginu þar sem blað félagsins og diskurinn Horft til himins voru til sölu ásamt búnaði til stjörnuskoðunar frá vefversluninni Sjónaukar.is. Gestir gátu einnig skoðað loftsteina og kíkt á Sjöstirnið í sjónauka innanhúss. Í lok málþingsins var vígður nýr sjónauki Menntaskólans á Akureyri sem fékk nafnið Stjörnu-Oddi og stofnað nýtt félag áhugamanna sem fékk nafnið Stjörnu-Odda félagið. Um kvöldið stóð til að félagsmenn SSFS sæju um stjörnuteiti en veðrið var ekki upp á marga fiska. Áhugasamir gátu samt klifrað upp um þakglugga á raungreinahúsinu Möðruvöllum til þess að skoða nýja sjónaukann.

Þátttakendur fyrir hönd Stjörnuskoðunarfélagsins voru Gabríella Óskarsdóttir, Gísli Már Árnason, Ottó Elíasson, Óskar Torfi Viggósson og Sverrir Guðmundsson.

 

Hér eru myndir frá málþinginu

 

Félagsfundur 7. mars 2010

Dagsetning: 7. mars 2010.

Fundarstaður: skólastofa í Valhúsaskóla.

Þátttakendur: félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness - um 20 manns mættu.

Dagskrá

1. Græjukvöld

2. Framtíðaraðstaða í Krýsuvík

Helstu málefni dagskrár

Fundurinn hófts á því að framtíðaraðstöðunefnd sagði stuttlega frá áformum félagsins um að reisa stjörnustöð í Krýsuvík en fyrirmyndin að stöðinni er sótt til stjörnustöðvar RASC í Edmonton. Síðan gátu félagsmenn skoðað nokkra sjónauka í eigu félagsmanna og Stjörnuskoðunarfélagsins. Þeir félagsmenn sem mættu með sjónauka voru Adam Thor Murtomaa, Grétar Örn Ómarsson, Jón Örn Sigurðsson, Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason.

Þátttakendur: félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness - um 20 manns mættu.

Fundi var slitið um klukkan 22:30.

 

Fyrir hönd stjórnar Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness,

Sverrir Guðmundsson, ritari.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness - 600279-0339 - Valhúsaskóla v. Skólabraut, 170 Seltjarnarnes - ssfs [hjá] astro.is - mail.astro.is